Vaknaði um hálftólf í morgun og er enn hálfheyrnarlaus eftir gærkvöldið. Ég hef bara aldrei dansað jafnmikið eða skemmt mér svona vel.
Afmælisveislan hjá Assa var mjög skemmtileg, veitingarnar voru glæsilegar og mér fannst sérstaklega skemmtilegt að allir skyldu geta mætt, það er ekki svo oft sem það gerist. Assi hafði fundið upp á alveg frábærum drykkjuleik sem fólst í því að við kölluðum hvert annað millinöfnum okkar allt kvöldið og þeir sem rugluðust þurftu að staupa eplasnafs. Gestir kvöldsins voru því Drífa(Hófí), Ósk (Lena), Dóra (Theó), Rakel (Elva), Hanna (Jóhanna), Sif (Halla), Kolbrún (Bára), Örn (Sigurjón), Jóna (ég) og loks gestgjafinn sjálfur Ólafur (Assi). Þetta var mjög góð hugmynd sem vakti upp mikinn hlátur og þurfti Theó...nei fyrirgefið...Dóra...að taka ansi mörg staup!
Rétt eftir miðnætti var síðan haldið í bæinn og við Hófí, Halla, Jóhanna, Assi og Sigurjón fórum á NASA. Mikið rosalega er það flottur staður og tónlistin alveg meiriháttar. Við dönsuðum samfleytt frá rúmlega hálfeitt til hálffjögur fyrir utan tvær stuttar klósettferðir. Vanalega finnst mér leiðinlegt að fara í bæinn eftir partý en þetta var frábært. Kannski maður fari núna að fara reglulega í bæinn til að dansa frá sér vit og rænu á NASA. Topp staður!
Enginn hefur lagt orð í belg!